Á boðstólnum verða heimagerðir hlutir, jólaskraut, dúkar, leikföng, fatnaður. Fylgihlutahornið verður á sínum stað og að sjálfsögðu heimabaksturinn, en KFUK konur eru þekktar fyrir gómsætar jólasmákökur, bollur og tertur.
Tekið er við gjöfum á basarinn í húsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28 í vikunni áður en basarinn er haldinn. Föstudaginn 27. nóvember verður móttaka í húsinu til kl. 21. Basarinn hefst klukkan 14:00 í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 Laugardaginn 28. nóvember.
Basar KFUK í 100 ár
Fyrsti basar KFUK var haldinn 11. desember 1909 að danskri fyrirmynd. KFUK konan Valgerður Lárusdóttir (síðar Briem) átti veg og vanda að skipulagningu basarsins en hún hafði tekið þátt í framkvæmd basars KFUK í Danmörku.
Á þessum fyrsta basar KFUK voru seldar eingöngu "kvenlegar hannyrðir á afarlágu verði, hentugar til jólagjafa" eins og stóð í auglýsingu fyrir basarinn en einnig var boðið upp á skemmtiatriði, söng og upplestur. Á basarnum var einnig hægt að kaupa lotterí miða og freista gæfunnar í jólahappdrættinu. Guðrún móðir sr. Friðriks Friðrikssonar hélt utan um kaffisölu samhliða basarnum.
Í undirbúningi fyrir basarinn höfðu KFUK stúlkur haldið saumafundi einu sinni í viku þar sem saumað var á basarinn og höfðu þær árangur erfiðis síns því allt seldist upp á fyrsta basarnum nema tveir pottaleppar og nokkrir lotterí miðar.
Upp frá þessu hefur basar KFUK verið mikilvægur liður í fjáröflun félagsins. Vikulegir saumafundir voru hluti af félagsstarfi KFUK fram eftir öldinni og enn í dag hittast KFUK konur reglulega á saumafundum, þó með óformlegra sniði sé.
Á saumafundi 11. maí 1912 var stofnaður sjúkrasjóður KFUK að frumkvæði fátækrar félagsstúlku sem lagði til 2 krónur í stofnfé. Hlutverk sjóðsins var að styrkja félagskonur í alvarlegum veikindum. Gáfu KFUK stúlkur frjáls framlög í sjóðinn á saumafundum. Árið 1919 var ákveðið að láta 10% af ágóða basarsins renna til sjóðsins hefur sá siður haldist síðan.