Á mánudag var haldið stefnumót ungs fólks og stjórnmálamanna á Hótel Borg. Á stefnumótinu voru rúmlega 60 manns frá 12 æskulýðsfélögum. Menntamálaráðherra, Félagsmálaráðherra, Heilbrigðisráðherra og Samgöngu- og sveitastjórnaráðherra mættu til stefnumótsins ásamt sjö þingmönnum frá Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki.
Á stefnumótinu tóku til máls Sindri Snær Einarsson, varaformaður LÆF, Hreiðar Már Árnarson framkvæmdastjóri sambands íslenskra framhaldsskólanema og Þórólfur Þórlindsson prófessor við Háskóla Íslands. Þórólfur lagði áherslu á að Íslendingar þyrftu að læra af reynslu nágrannaþjóða okkar sem sjá nú gríðalega alvarlegar afleiðingar þess þegar ungu fólk er ekki sinnt í kreppunni. Hann ræddi einnig um þann krarft sem spratt upp með tilkomu grasrótarhreyfinga ungs fólks um aldamótin 1900. Þar var lagður grunnur að því æskulýðsstarfi sem við þekkjum í dag með stofnun KFUM og KFUK, UMFÍ og Skáta. Í dag sé nauðsynlegt að beisla þann kraft.
Eftir hlé hélt menntamálaráðherra stutt erindi og í kjölfarið spunnust fjörugar umræður m.a. um atvinnuleysisbætur ungs fólks, mikilvægi menntunnar, lýðháskóla, frjáls félagasamtök, óformlega menntun og fleira.
Ljóst var að þeir þingmenn sem mættu á stefnumótið eru afar meðvitaðir um vandann sem steðjar að ungu fólki í kreppunni. Mikilvægt er að halda áfram að vekja fólk til meðvitundar um þátttöku ungs fólks í samfélaginu og að skapa þeim ný tækifæri þegar önnur lokast.
Í ungu fólki býr kraftur sem þarf að nýta og líta á ástandið sem tækifæri en ekki vandamál.