Loftslagsbreytingar: Frá afsökunum til aðgerða
Þýðandi: Þorgeir Arason
Ritningarlestur: Postulasagan 27.18-20, 41-44
„Daginn eftir hrakti okkur mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið. Og á þriðja degi vörpuðu þeir fyrir borð með eigin höndum búnaði skipsins. Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af.“
En Páll fékk sýn um að þeir myndu allir bjargast. Hann hvatti þá sem um borð voru til að borða og safna kröftum. Þeir greindu vík.
Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu. Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi. En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagerð þeirra. Bauð hann að þeir sem syndir væru skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.“
Jörðin er tekin að verja sig. Hörmungarnar munu ekki einskorðast við flóð líkt og á dögum Nóa, þrátt fyrir að íbúar Bangladesh og sumra eyríkja finni nú þegar á eigin skinni vatnsborð sjávar hækka ískyggilega. Harða regnið verður stöðugt harðara og þurrar sléttur verða æ þurrari. Tölvureiknilíkönin höfðu á röngu að standa. Afleiðingar hnattrænnar hlýnunar mæta okkur hraðar og verða harkalegri en nokkur hafði getað gert sér í hugarlund. Tíminn, sem heimurinn hefur til stefnu, er senn á þrotum.
Hvernig getur góður samþegn jarðarinnar brugðist við þessum vanda? Nægir að skilja bílinn eftir í bílskúrnum einu sinni í viku, eða ákveða ef til vill að kaupa alls ekki bíl? Skiptir máli hvort maður skrifar þingmönnunum eða dagblöðunum bréf? Eða mótmælir þeim sem menga? Nú, eða biður fyrir skjótvirkum tæknilausnum?
Okkur er sagt að hinir fátækustu verði fyrstir til að þjást þegar harða regnið fellur til jarðar, eða þegar þurrkar, hin hlið loftslagsbreytinganna, valda uppskerubresti.
Kunnasta frásögn Biblíunnar um skip og ofviðri er sagan um örkina hans Nóa. Nói er fljótur að verða að fyrirmynd. Leyf mér að byggja mína örk, bjarga mínu fólki, halda mínu starfi, vernda iðnaðinn okkar. Við munum geta flotið á öldunum og komist hólpin á leiðarenda. Því meiri sem óttinn er, því meiri verður einbeitingin á örkinni. Þegar harða regnið fellur til jarðar munum við smíða betri regnhlífar handa sjálfum okkur. Við munum komast af; hinum er vorkunn. Örkin er á hinn bóginn ekki eina sagan um skip í Biblíunni.
Miklu minna kunn er frásögnin af skipbroti Páls. Vert er að lesa allan kaflann í Postulasögunni. Sæfararnir reyna að komast undan af eigin rammleik, en Páll kemur í veg fyrir það. Hermennirnir eru íþann veginn að ganga milli bols og höfuðs á föngunum, en úr því að Páll er í hópi fanganna bjargar hundraðshöfðinginn þeim öllum. Á endanum komast allir heilu og höldnu á leiðarenda.
Í sögunni um Nóa er einni fjölskyldu bjargað með öllum dýrunum í örkinni. En öllum öðrum er eytt. En í frásögn Postulasögunnar verða allir hólpnir, sem í vanda eru staddir. Enginn glatast. Hvers konar samþegn jarðarinnar getur gert það að verkum að enginn glatist?
Hinir auðugu í bæði þróaðri ríkjum og þróunarlöndunum neyta meira en sem nemur þeirra skerfi af auðæfum jarðar. Margir þeirra eru önnum kafnir við að bjarga sjálfum sér. Þeim mörgu fátæku, sem þarf að fórna, er bara vorkunn. Ef allt er að fara á flot munu þeir sem hafa yfirráð yfir auðæfunum kaupa upp það land, sem hátt stendur. En Páll postuli myndi ekki leyfa neinum að flýja sökkvandi skip. Öllum yrði bjargað, eða engum.
Að hafa fingurinn á lofti dugir ekki til, því að róttækra breytinga er þörf í þessum vanda. Hin vistfræðilega kreppa kallar á andlegar lausnir. KFUM og KFUK geta skapað samfélag þar sem gildi þess að neyta minna er haldið á lofti. Í samfélagi með kirkjunum í hverfinu geta þau byrjað að sýna fram á, að það eru tengsl sem eru uppspretta hamingjunnar, ekki endalaus neysla. Þau geta veitt fordæmi um gleðina sem hlýst af því að starfa saman, deila hlutunum saman, hlæja saman, og á sama tíma að vinna að því að gera heiminn og nærsamfélagið að betri stað. Það að hafa áhyggjur af loftslagsbreytingunum er ekki það sama og að vera ósveigjanlegur og óttasleginn. Þegar harða regnið fellur til jarðar, þá erum við saman, og finnum leiðir til þess að allir geti komist af. Engum hóp verður fleygt fyrir borð í ofviðrinu til að berjast upp á eigin spýtur, og lofsöngvar eru sungnir fyrir alla sem bjargast. Gleðidans brýst út fyrir alla sem hafa verið dregnir á land. Sé skjótvirkum aðgerðum beitt hefur jörðin tækifæri til lækningar. Þá verður öllum bjargað.
Spurningar til íhugunar
Hvaða skref getum við stigið nú þegar til að takmarka neyslu okkar á verðmætum auðlindum? Hvernig getum við skorað hvert á annað að fara handan við hinar augljósu (og stundum auðveldu) lausnir? Hvað breytti viðhorfi þínu til loftslagsbreytinga, og hvaða áhrif hefur þetta haft á atferli þitt? Hvaða gleðilegu leiðir getum við farið til að fagna því að lifa í sátt við jörðina sem Guð hefur gefið okkur?
Bæn
Skapari
sem smíðar allt
og elskar allt sem þú smíðar,
umbreyttu þrám okkar og hjörtum okkar
svo að við eyðum ekki því sem þú skapar,
heldur metum að verðleikum það sem þú gefur okkur
og gætum jarðarinnar eins og hvert annars,
fyrir Jesú Krist. Amen.