Farfuglum fagnað þýð: Þorgeir Arason
Ritningarlestur: Jóhannes 1.10-14

„Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“

Blessaður sé Guð, Orðið,
sem kom til eignar sinnar og hans eigið fólk tók ekki við honum,
því að með þessu móti upphóf Guð hinn gestkomna.
Heilagur Gregor frá Nyssa (4. öld)

Ó Guð, sýndu okkur mynd þína í öllum sem hingað koma í dag
svo að við mættum taka vel á móti þeim og þér.
Heilagur Gregor frá Nyssa, Biskupakirkjan, San Francisco

Orðið gerðist farfugl,
tókst á hendur erfiðara ferðalag en för til Mars,
gerðist einn okkar,
bjó meðal okkar.
En Biblían segir okkur að við þekktum ekki Orðið.
Við könnuðumst ekki við að við værum tengd þessu Orði.
Við tókum ekki við Orðinu.

Því eru enn til lög sem letja menn til að koma,
enn til orðfæri, landamörk, flóttamannabúðir,
enn til skilti sem segja: „Farið heim!“,
enn er Orðinu bölvað handan við götuna, enn kvartað:
„Þið eruð að taka frá okkur störfin.“
Enn finna menn leiðir til að halda Orðinu, sem er á ferð og flugi, frá sér.
Orðið gerðist innflytjandi, fullt af náð og sannleika.
Já, kannski var það þannig í upphafi;
en það er ekki svona létt fyrir farfugla dagsins í dag.
Fyst kemur sannleikurinn, hreinskilni seld fyrir falskt vegabréf,
heiðarleiki yfirgefinn fyrir dapurlegri frásögn, í von um að einhver komi til hjálpar.
Síðar kemur náðin,
gleypt af örvæntingunni,
sviknum loforðum vinnumiðlaranna, sem lugu til um góð störf og auðfengið fé,
hlýleiki sem tortryggnin frystir.

Í bæninni segir: „Sýndu okkur mynd þína í öllum sem hingað koma.“
Orðið býr meðal okkar, fullt náðar og sannleika,
en það fer lítið fyrir dýrðinni.
Það sér um ömmu eða börnin,
þrífur húsið, eldar máltíðirnar,
stundum verst það ástleitni húsbóndans, en stundum ekki.
Það hefur menntun sem hjúkrunarfræðingur, eða kennari,
meiri menntun en þarf til að skipta um bleiur,
menntun sem þörf er á heima fyrir.
Það saknar barnanna sinna.
Það saknar fjölskyldu sinnar.
Það saknar brossins frá fólkinu sem þekkir það.
Það saknar þess að heyra tungumál sitt talað,
hið daglega spjall sem tengir það við samfélag sitt.
Það hittir aðra frá heimalandi á frídeginum sínum,
þegar það fær frídag,
undir brúnni, í garðinum, í safnaðarheimilinu, í KFUM-húsinu.

Margar fornar sögur segja frá því að Messías birtist í óvæntu dulargervi.
Kristindómurinn hefst á því að Guð stígur yfir landamæri,
guðdómurinn ferðast til mannkynsins,
skilur eftir það sem honum með réttu tilheyrði,
byrjar í nýjum heimi, okkar heimi, umhverfi okkar.

Guð er farfugl, hann verður hold,
stundum hungrar hann í matarbita,
en ávallt hungrar hann í að vera boðinn velkominn..

Guð er innflytjandi, hann verður hold,
stundum saknar hann ferðagagna til að komast með öruggu móti á áfangastað
en alltaf saknar hann heimkynna sinna,
heimkynna þar sem allir, sem þess óska, fá stað við borðið.

Guð er nýbúi, hann verður hold,
og með því að hræðast, snúa við baki, hafna og útskúfa,
villist mannkyn okkar,
og þessi dómsorð í upphafi Jóhannesarguðspjall verða máttugt afl:
Orðið, hin guðlega speki, miðpunkturinn eini,
kom til okkar, og við þekktum hann ekki.
Við tókum ekki á móti honum.
Kannski er dómurinn enn harðari,
við þekktum Orðið og höfnuðum því samt sem áður.

Enn gefst tækifæri.
Bölvun má breyta í bros.
Farfuglinn Orðið er ekki óvinurinn.
Farfuglinn Orðið gæti komið til bjargar.
Fyrirheitið gæti verið uppfyllt á endanum.
Öllum þeim sem tóku við þessu Orði,
sem sjá mynd Guðs í gestinum,
gefur Guð réttinn til að verða Guðs börn.

Orðið gerðist farfugl, varð hold,
bjó meðal okkar.
Ef við gætum opnað augun, myndum við þiggja náð á náð ofan.

Spurningar til íhugunar

Hvaða mörk setjum við á mynd Guðs? Við hvaða aðstæður vitum við að við erum ekki að bjóða Guð velkominn í hinum gestkomanda, en höldum samt höfnun okkar áfram? Hvað gæti KFUM og KFUK gert til að taka það hlutverk alvarlega að bjóða nýbúa velkomna? Hvað gætum við gert til að bæta andrúmsloftið sem mætir þeim þegar þeir koma í félagið til okkar?

Bæn

Speki, dýpri en sérhlífni manna,
orð, sem opnar hugann,
faðmur, sem tekur á móti hinu óþekkta,
taktu frá okkur óttann
svo að speki þín gegnsýri stjórnmál okkar,
orð þitt dragi okkur nær kærleikanum
og faðmur þinn haldi okkur uns við þekkjum þína miklu náð
og þorum að horfast í augu við sannleika þinn.
Amen.

KFUM á Spáni styður menningarlega fjölbreytni og aðlögun

Árið 2008 er talið að um 5,5 milljónir innflytjenda hafi búið á Spáni, en það svarar til næstum 15 % fólksfjöldans í landinu. KFUM á Spáni stendur fyrir verkefnum í Madríd, Logrono, Zaragoza, Barcelona og Valencia, til að styðja þvermenningarlegan skilning og þekkingu, og til að veita ungmennum úr hópi innflytjenda og fjölskyldum þeirra afar þarfan stuðning.

Til að efla gagnkvæma virðingu og betri aðlögun innflytjenda hefur KFUM á Spáni gert allar starfsstöðvar sínar að miðstöðum aðlögunar þar sem reynt er að hvetja til þess að spænsk ungmenni og aðflutt geti búið saman í sátt og samlyndi. Þetta er gert í gegnum vinnu við sameiginleg verkefni á borð við nám, þjálfun og afþreyingu. Spænskukennsla, lögfræðiráðgjöf, stuðningur við heimanám fyrir börn og þjálfun nýbúa úr hópi ungs fólks og kvenna við að fóta sig á vinnumarkaðinum, er einnig meðal vikulegra dagskrártilboða KFUM-starfsins.

Árlega njóta yfir 1.500 nýbúar góðs af ýmsum verkefnum sem KFUM á Spáni skipuleggur.