Baráttan fyrir betri heimi er yfirskrift alþjóðlegrar bænaviku KFUM og KFUK. Í tilefni af bænavikunni hafa verið þýddar fimm hugleiðingar úr bænahefti sem Heimssambönd KFUM og KFUK hafa gefið út og verða þær birtar hér á síðunni. Hugleiðingarnar tæpa á ýmsum málefnum. Sum þekkjum við betur en önnur en öll eiga þau það sameiginlegt að vera mikilvæg baráttumál um allan heim. Við, fólkið sem byggir þessa jörð, þurfum að standa saman til þess að jafnrétti fyrir alla verði að veruleika, óháð búsetu, kyni, uppruna eða efnahagslegra gæða. Það er baráttan fyrir betri heimi.
Ég vona að þú takir þátt í alþjóðlegu bænavikunni, þegar KFUM og KFUK félagar um allan heim leggjast saman á bæn og biðja fyrir betri heimi. Hugleiðingarnar eru hugsaðar sem inngangur að bæninni, að veita innsýn inn í málefnið sem beðið er fyrir.
Alla virka daga í bænavikunni verða bænasamverur á Holtavegi kl. 12:15. Bænasamvera verður haldin í Sunnuhlíð á Akureyri á þriðjudag kl. 12:15