KFUM og KFUK er aðili að vímuvarnarvikunni, viku 43, hér má lesa áskórun vikunnar.

Málið varðar okkur öll!

Neytendum kannabisefna sem leita sér meðferðar hefur fjölgað um
helming síðustu ár á Íslandi. Þar á ungt fólk einkum í hlut. Skaðleg
líffræðileg áhrif kannabisneyslu eru þekkt, svo og tengsl við neyslu
annarra fíkniefna, s.s. amfetamíns. Á grundvelli þessarar vitneskju er
mikilvægt að börn og unglingar láti ekki blekkjast af rangfærslum um
kannabisefni, heldur afli sér traustra upplýsinga. Til þess þurfa þau
stuðning og hvatningu af hálfu foreldra/forráðamanna, kennara,
þjálfara, leiðbeinenda og annarra sem standa vörð um hag og velferð
þeirra.

Í æsku og á unglingsárum er lagður grunnur að framtíð einstaklings. Þá
mótast mikilvægar forsendur lífssýnar, þroska og heilbrigði síðar á
ævinni. Börn og ungmenni eru berskjölduð fyrir hvers kyns áróðri, m.a.
fyrir neyslu fíkniefna. Fíkniefnaneysla getur verið dýrkeypt. Það
þekkja þeir sem misst hafa tökin á neyslu sinni, fjölskyldur þeirra,
aðstandendur og vinir. Málið varðar okkur öll.