Um 200 gestir heimsóttu Hólavatn í gær, sunnudaginn 16. ágúst, í fallegu veðri. Þar fór fram árleg kaffisala og var ánægjulegt að sjá að börnum fjölgar jafnt og þétt ár frá ári á kaffisölu enda hefur orðið sú breyting á að nú er miklu fleira í boði fyrir börnin en áður. Hoppukastali, trampólín, bátar, fjársjóðsleit með málmleitartækjum og margt fleira vakti ánægju barnanna og foreldrar nutu þess að sitja með kaffibollann á meðan að börnin léku sér. Annað árið í röð flaug Arngrímur Jóhannsson yfir svæðið og lék listir og að þessu sinni var önnur flugvél með í för og vakti koma þeirra óskipta athygli og mikla lukku.
Innkoma kaffisölunnar kemur í góðar þarfir því Hólvetningar standa í nýbyggingarframkvæmdum og er áætlaður byggingarkostnaður þessa árs um 15 milljónir króna. Það var því ánægjulegt að nokkrir velunnarar sem ekki sáu sér fært að koma á kaffisöluna sendu samt ávísun eða pening til að styrkja og borga fyrir kaffið. Þá eiga sjálfboðaliðar mikið hrós skilið en um 30 manns komu með einum eða öðrum hætti að kaffisölunni og er ómetanlegt fyrir Hólavatn að eiga slíkan bakhjarl.