Nú er veisludagurinn að baki hér í 7. flokki í Vindáshlíð. Veðrið lék við okkur fram eftir degi en síðdegis kólnaði aðeins. Margar stelpur fengu sér hafragraut í morgunmat en hinar morgunkorn. Á Biblíulestri var talað um heilagan anda sem hjálpar okkur og ávextir hans eru m.a. gleði, friður, góðvild, langlyndi og kærleikur. Síðan var komið að úrslitaleiknum í brennókeppninni. Það voru Skógarhlíð og Birkihlíð sem áttust við. Svo fór að Birkihlíð stóð uppi sem sigurvegari. Í hádeginu fengu stelpurnar súpu með osti, Dorritosflögum og heimabökuðu brauði. Foringjar kepptu síðan við nýbakaða brennómeistara úr Birkihlíð og og fóru leikar svo að foringjarnir unnu. Kaffihlaðborð var úti og svo hófst undirbúningur hárgreiðslukeppninnar. Um kl. 18 var fáninn tekinn niður og stelpurnar sungu vefa mjúka dýra dúka um leið og þær gengu tilbaka í skrúðgöngu. Veislan hófst síðan í fallega skreyttum matsalnum og verðlaun voru veitt. Foringjar sáu síðan um skemmtiatriði á kvöldvökunni. Á kvöldhugleiðingunni var sagt frá Zakkeusi og hvernig Jésus breytti lífi hans til hins betra. Í fyrramálið er komið að brottför og eru margar búnar að pakka að mestu. Lagt verður af stað frá Vindáshlíð kl. 11:00 og komið að Holtavegi um kl. 12:00.