Blessuð sólin vakti okkur. Eftir morgunverð og hyllingu fánans hófst Biblíulestur. Þar var fjallað um ýmsar persónur sem frásögur fara af í Biblíunni og komu sumar þeirra í heimsókn í Klappljósþáttinn, t.d. Abraham, samverska konan og Davíð. Svo var hægt að keppa í köngulóarhoppi og brennó. Boðið var upp á kjúklingaleggi, salat og hrísgrjón í hádeginu. Kl. tvö var haldið upp að Sandfelli og gengið að því og í kringum það. Stelpurnar máttu rita nafnið sitt með steini í fjallið og var það afar vinsælt. Síðar komu þær að tærri uppsprettu og þá var gott að svala þorstanum. Allt gekk vel og er heim var komið beið stelpnanna hér úti á hlaðborði kökusneið, bollur, epli og djús. Seinna var svo hægt að keppa í limbói, vera á hoppudýnu eða fara í skotbolta. Grjónagrauturinn var svo vel þeginn og á kvöldvökunni voru leikrit og þrautir. Einmuna veðurblíða einkenndi þennan dag og voru stelpurnar minntar á það á hugleiðingu kvöldsins hversu dýrmætar þær eru hver og ein. Flestar sofnuðu fljótt, því svefninn þreytu mýkir eins og segir í kvöldsöng Vindáshlíðar.