Æskulýðsstarf KFUM og KFUK er nú komið á fullan skrið og ljóst er að þetta verður gríðarlega skemmtilegur vetur. Eins og venjulega er tekið upp á ýmsu skemmtilegu í deildunum og eru dagskrárnar jafn mismunandi og þær eru margar. Í síðustu viku fóru t.d. stelpurnar í Lindasókn í "Ótrúlega kapphlaupið" þar sem markmiðið var að leysa ýmsar þrautir og safna stigum. Þrautirnar voru allt frá því að finna 10 steina, byggja 3ja hæða spilahús, svara spurningum um hugleiðingu fundarins og upp í að semja sögur og fletta upp í Biblíunni.
Strákarnir í Seljakirkju voru með blöðrubrjálæðisfund þar sem farið var í ýmsa skemmtilega leiki með blöðrur. Í næstu viku stefna krakkarnir í Digraneskirkju í spennandi ævintýraferð þegar þau fara að kanna hella í nágrenni Kópavogs.
Það er af nógu að taka í frásögnum úr æskulýðsstarfinu og munum við færa ykkur fregnir og myndir af því hér á síðunni í vetur.
Það er að sjálfsögðu allir velkomnir að vera með og leiðtogarnir taka vel á móti öllum nýjum og gömlum þátttakendum í KFUM og KFUK.