Í gær komu hingað 85 eldhressar og skemmtilegar stelpur staðráðnar í því að skemmta sér vel í Vindáshlíð.
Þegar búið var að fara yfir helstu reglurnar og skipta stelpunum niður í herbergi komu þær sér fyrir, hver í sitt rúm. Þegar þær voru búnar að því og kynnast nýju herbergisfélögunum sínum var hádegismatur. Þá var borinn á borð dýrindis plokkfiskur með grænmeti og rúgbrauði sem stelpurnar borðuðu af bestu lyst.
Eftir hádegismatinn fóru stelpurnar síðan í ratleik um svæðið þar sem þær leystu hinar ýmsu þrautir og fóru í leiki.
Kaffið var borið á borð eftir ratleikinn. Þá var boðið upp á döðlubrauð, nýbakaðar bollur og hjónabandssælu sem stelpurnar hámuðu í sig, enda orðnar svangar eftir ratleikinn. Því næst fór brennókeppnin af stað og ljóst er að margar efnilegar stelpur eru hér á ferð og greinilegt að brennókeppnin verður gríðarlega spennandi. Íþróttaforinginn byrjaði einnig með íþróttakeppni og sumar stelpur gerðu vinabönd.
Í kvöldmat fengu stelpurnar síðan skyr og brauð og héldu síðan niður í íþróttahús þar sem var sungið og trallað. Að kvöldvökunni lokinni heyrðu stelpurnar um Jesús og að hann sé okkar hirðir.
Ákveðið var að hafa standandi kvöldkaffi og frjálsan tíma fyrir háttinn sem stelpurnar nýttu til þess að spjalla saman, kynnast, tannbursta sig í læknum og gera sig tilbúnar fyrir svefninn. Þegar bænakonurnar áttu að koma inn til þeirra, var svo laumað blaði undir hurðina hjá þeim þar sem þeim var tilkynnt að þær þyrftu að leysa nokkrar þrautir til þess að komast að því hver væri bænakonan þeirra. Bænakonurnar enduðu síðan daginn með stelpunum og ljóst var að nokkrar voru orðnar þreyttar. Við ákváðum að koma stelpunum á óvart og settu foringjarnir klósettpappír í hárið og klæddu sig í náttföt og héldu náttfatapartý. Og ekki nóg með það heldur var búið að höggva jólatré, skreyta matsalinn með jólaseríum og gera allt jólalegt. Það var dansað í kring um jólatréð og sungin jólalög. Hurðaskellir og Grýla mættu á svæðið og gáfu stelpunum piparkökur og foringjarnir fóru með jólaguðspjallið. Eftir jólin héldu stelpurnar í háttinn og voru flestar þeirra ekki lengi að sofna enda klukkan komin vel fram yfir miðnætti.
Það er ljóst að það verður mikið stuð og mikið fjör næstu vikuna.
Tæknin er eitthvað að stríða okkur en við látum inn myndir eins fljótt og við getum!
Kveðja,
Bára og Tinna