Fjórði ævintýradagurinn er að kveldi kominn og stúlkurnar eru svo sannarlega kraftaverk hver og ein þeirra! Við lok morgunverðar undirbjó ég stúlkurnar með lestri sögu, fyrir það sem á eftir kom. Skyndilega var bankað fast á glugga matsalarins og úti fyrir voru svartklæddar manneskjur með svört bönd um ennið. Stúlkurnar ruku upp úr sætum sínum og hafinn var hermannaleikur þar sem þær þurftu að komast að þeim reglum sem giltu og rata réttan veg. Þessi leikur entist okkur fram undir hádegismat, en þá var dýrindis gratíneruð ýsa í matinn. Eftir mat var síðan Biblíulesturinn sem við frestuðum að morgni og síðan var stund til að undirbúa hæfileikakeppnina. Eftir gómsætt meðlæti í kaffitímanum hófst hæfileikakeppnin, en þar komu óvænt tveir furðufuglar sem tóku að sér að vera kynnar í keppninni. Þeir kunnu líka að spila og syngja, þannig að það var ekkert leiðinlegt!

Í dag voru það stúlkurnar í Hlíðarveri sem undirbjuggu atriðin fyrir kvöldvökuna, sem heppnuðust mjög vel. Ákveðið var að þar sem ekki hafði unnist tími til að fara í brennókeppnina, skyldi sú keppni halda áfram þrátt fyrir að degi væri verulega tekið að halla. Síðan var ávaxtabitinn velkominn og haldið var í að undirbúa sig fyrir svefninn. Eftir lestur og bænir með bænakonum, var opnað fram og þar sátu bænakonurnar og sungu stúlkurnar í svefn. Lífið er sko ljúft hér í Ölveri og vandamálin smávægileg. Þess má geta að hér hefur verið sætur hoppukastali sem þeim þykir mjög notalegt að hoppa svolítið í, nokkrum vinkonum í senn.

Með þakklætiskveðju,
Ása Björk, forstöðukona.