Það er alltaf nóg að gera í Vatnaskógi og gærdagurinn var engin undantekning þar á. Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki leikið við okkur en talsverður vindur hefur verið úr norð-austri. Þess vegna höfum við ekki getað opnað bátana en hins vegar buðum við upp á ferðir á mótorbát og mældist það vel fyrir. Inn í skóginum og á milli húsana þar sem er skjól hefur hins vegar verið nokkuð hlýtt og því lítið mál að vera úti í leikjum. Það eru áfram íþróttirnar sem eiga hug drengjana og í gær var keppt í Víðavangshlaupi, þar sem hlaupið er hringinn í kringum vatnið, rúma fjóra kílómetra. Þetta er sannkallað hindrunarhlaup þar sem fara þarf yfir tvo ósa, fram hjá kríuvarpi og fleira. Rúmlega 20 drengir tóku þátt og höfðu allir mjög gaman af eins og vanalega.
Svínadalsdeildinni í knattspyrnu lauk í gær með sigri 1. borðs og í dag hófst keppni í bikarnum. Hér eru fjölmargir drengir sem hafa gaman af knattspyrnu og taka virkan þátt í leikjum síns borðs.
Eitt af því sem notið hefur vinsælda í þessum flokki er stangartennis og í gær blés útileikjaforingi til keppni í stangartennis og fjölmargir drengir tóku þátt. Um kvöldið var smíðaverkstæðið svo opið og litu nokkrar eldhússtelpur við og fluttu ballettleikþátt fyrir drengina sem voru að smíða. Einnig voru heitu pottarnir opnir og margir sem nýttu sér það tækifæri.
Kvöldið endaði svo á kvöldvöku og þar á eftir er farið að sofa en þeir sem vilja geta einnig komið á bænastund í Kapelluna, það eru alltaf fjölmargir drengir sem sækja þær stundir.

Myndir frá gærdeginum má sjá hér. Í dag er aðeins farið að kólna eins og annarstaðar á landinu og því eru drengirnir hvattir til að klæða sig vel og halda áfram að njóta þess að vera í Vatnaskógi.
Kveðjur
Þráinn