Árleg kaffisala sumarbúða KFUM og KFUK að Hólavatni verður haldin sunnudaginn 16. ágúst kl. 14.30-17.00. Að venju verður margt í boði fyrir alla fjölskylduna því fyrir utan kaffihlaðborðið sjálft verða bátar, hoppukastali, trampólín og leiktæki. Þá er kjörið tækifæri til að skoða nýbyggingarframkvæmdir en ár er liðið síðan tekin var skóflustunga að nýjum svefnskála og neðri hæðin er risin og framkvæmdir halda áfram á haustmánuðum.
Starfið í sumar gekk vel og var góð þátttaka í öllum flokkum og örlítil aukning varð í aðsókn á milli ára. Forstöðukona í sumar var Sunna Gunnlaugsdóttir, leikskólakennari og djáknanemi og ráðskona var Halla Marie Smith. Aðrir starfsmenn í sumar voru Herdís Helgadóttir, Helga Frímann, Guðrún Pálsdóttir, Hreinn Pálsson og Pétur Ragnhildarson.
Í tengslum við kaffisöluna í ár verður boðið upp á golfmót á laugardeginum og er það öllum opið og geta áhugasamir haft samband við Jóhann Þorsteinsson, Svæðisfulltrúa KFUM og KFUK á Norðurlandi í síma 699-4115. Leikið verður á golfvellinum við Þverá í Eyjafjarðarsveit og leiknar verða 9 holur. Mótið hefst á laugardeginum kl. 14.30 og geta þátttakendur utan af landi fengið að gista á Hólavatni og tekið svo þátt í kaffisölunni á sunnudeginum.