Núna standa yfir Heilsudagar Karla í Vatnaskógi. Um 50 karlmenn vöknuðu með stírur í augunum í morgun mættu rétt rúmlega 8 í morgunæfingar og sungu þegar fáninn var dreginn að húni. Eftir morgun stund var búið að fjölga í hópnum og var Ólafur Sverrisson formaður Skógarmanna búinn að deila út verkefnum sem karlmennirnir gátu unnið í þágu Vatnaskógar. Meðal verkefna var að sækja eldivið og höggva hann, vinna í þakinu á nýbyggingunni, setja lýsingu á bílaplanið og múra skorsteininn á Gamlaskála, reita njóla og fífla útá íþróttavelli, laga umhverfið í kringum kapelluna og margt fleira. Karlarnir fá í staðinn ljúfengann mat en veisla verður haldin í kvöld þar sem velunnarar skógarmanna koma og snæða með körlunum ljúffengar svínalundir með villisveppasósu þar sem sveppirnir eru tíndir í skóginum af Lárusi Páli sveppaáhugamanni. Núna eru saddir og sáttir karlar farnir aftur út að vinna og mun staðurinn hafa annan svip þegar helgin er liðin.