Fyrsta sunnudagssamkoma vetrarins verður í kvöld á Holtavegi. Samkoman markar upphaf vetrarstarfsins en í næstu viku hefst svo æskulýðsstarf félagsins. Yfirskrift samkomunnar er "Ég vil lofa Drottin" og verður sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir með hugvekju.
Samkomurnar verða á hverjum sunnudegi í vetur. Samkomurnar eru hugsaðar sem vettvangur til að eiga notalega stund þar sem lífleg tónlist, söngur og innihaldsríkur boðskapur er í öndvegi ásamt því sem fjallað verður um málefni sem tengjast á einn eða annan hátt starfsemi félagsins. Fjölbreyttur hópur ræðumanna mun fjalla um Guðs orð út frá mörgum sjónarhornum.
Til að skapa fjölbreytni í tónlistarumgjörðinni munu fjórir sönghópar skipta með sér að leiða söng á samkomunum. Leitast verður við að hafa fjölbreytni í lagavali og ekki síst horfa til þeirra laga sem félagsmenn hafa kunnað að meta gegnum árin og einnig laga sem íslenskur texti hefur verið gerður við í seinni tíð.
Samkomurnar verða að Holtavegi eins og verið hefur í frábæru húsnæði félagsins og er góð aðstaða fyrir hendi til að staldra við eftir samkomurnar og rabba saman. Samkomurnar eru öllum opnar og eru félagar KFUM/K eldri sem yngri sérstaklega boðnir velkomnir og eindregið hvattir til að bjóða vinum með sér.
Hópur félagsmanna stóð fyrir því að endurvekja samkomur af þessu tagi sl. vetur og var gerður góður rómur að þeim og því ákveðið að halda áfram í vetur á svipuðum grunni. Það eru allir velkomnir að hefja vikuna á góðri stund á sunnudagskvöldi í KFUM og KFUK