Í 7. flokki í Kaldárseli eru bæði strákar og stelpur á leikjanámskeiði og í sumarbúðum! Í dag fórum við í óteljandi marga leiki, borðuðum fiskibollur, köku með bleiku kremi og skyr. Svo fórum við í hellaferð og ratleik þar sem börnin giskuðu á hin ýmsu svör, s.s. fjölda seríós hringja í krukku, litinn á tannbursta ráðskonunnar og aldur foringjanna. Einn okkar foringjanna, sem er nítján ára, lenti aldeilis illa í því en einhverjir töldu hann vera um 37 ára gamlan. Hann stefnir á að raka sig á næstunni.
Eftir ratleikinn héldu krakkarnir á leikjanámskeiðinu heim á leið.
Við hin lékum okkur í skotbolta og héldum svo aldeilis skemmtilega kvöldvöku eftir kvöldmatartímann. Eftir nokkra hressa söngva fórum við í leiki, hlustuðum á sögur og skoðuðum ljósmyndir frá starfi ABC barnahjálpar í Úganda.
Svo…grilluðum við sykurpúða! Drukkum kakó og borðuðum kex…því næst fóru allir að bursta tennur og eftir nokkra brandara og sögur um Tuma litla (eftir Mark Twain) fóru allir að…LÚLLA!