Dagurinn hófst kl 8:30, bjartur, hlýr og fagur. Hafragrauturinn kláraðist í þetta sinn og passað verður upp á að hafa meira á morgun. En þær sem misstu af grautnum fengu sér cheerios og kornflex í staðinn. Eftir morgunmat fengu stúlkurnar að velja sér hóp. Danssmiðjan undir leiðsögn Birtu og Möttu var fjölmennastur og vilja þær lítið segja um hvað fram fer. Það mun koma í ljós á lokahátíðinni á morgun. Myndlistarsmiðjan vann ýmsar skissur undir leiðsögn Margrétar Rósar. Trumbuhópurinn sló taktinn með pottum, dósum og fötum.
Í hádegismat var plokkfiskur, kartöflur og hvítkáls- og gulrótarsalat sem rann ljúflega niður. Eftir hádegi var frjáls tími þar sem boðið var upp á veskissaum úr endurnýttu hráefni. Matta bauð upp á skapandi skrif og þar komu saman upprennandi höfundar sem skrifuðu ljóð saman. Einnig var kökuskreytingarhópur í eldhúsinu með Ernu matráðskonu og Birtu foringja. Þær gerðu stórfenglar kökur, bláan hval og kínverskan kastala sem voru svo borðaðar í kaffinu ásamt lummum og brauðbollum.

Eftir kaffi hittust hópar morgunsins aftur. Enn var á huldu með danshópinn (spennan magnast) en þær virðast makka saman með trommurunum. Myndlistahópur málaði myndir á striga. Farið var í brennókeppni og í pottinn eftir það.

Í kvöldmat var jarðaberjaskyr og brauðbollur með áleggi. Í upphafi kvöldvöku voru stelpurnar sendar í náttföt og eftir söng, leik- og tónlistaratriði frá stelpunum og hugleiðingu kvöldsins var DVD diskur settur í tækið og stelpurnar sungu með öllum helstu Mamma Mia slögurunum eins og þrautþjálfaður kór.

Svo var popp og djús í kvöldkaffi. Lok dagsins voru svo á helgistund þar sem allir kveiktu á kerti, sungu lofgjörðarlög og nutu andlegs fóðurs. Í þessum rituðu orðum er komin ró og sennilega eru flestar hvíldinni fegnar.
Fyrstu myndir voru að koma inn og nú eru allar myndir frá 2. degi komnar inná myndasvæðið (sjá tengil að hér að neðan)