Við áttum góðan dag í góðum gír hér í Vindáshlíð. Stúlkurnar voru vaktar kl. 9 og fengu öðruvísi morgunmat því nú eftir að hafa dvalið þrjár nætur í Vindáshlíð hafa þær (sem ekki hafa verið hér áður í flokki ) hlotið nafnbótina Hlíðarmey. Eftir biblíulestur var brennó og íþróttakeppni í leikskálanum því úti var léttur en þéttur rigningarúði en það stytti upp fyrir hádegi. Í hádegismat var grænmetislasagna og í kaffinu fengum við nýbakaðar kleinur sem slógu í gegn eftir hlíðarhlaup og gönguferð niður að rétt. Fram að kvöldmat voru leikir og brennó og foringjar fléttuðu hár stúlknanna í setustofunni. Sól skein á okkur í kvöldmatnum þegar við borðuðum pastarétt með kjúkling. Þótti stúlkunum það mjög góður matur og hættu ekki fyrr en búið var að sjóða talsvert meira og klára það líka. Á kvöldvöku sáu tvö herbergi um skemmtiatriði og leiki en eftir hugleiðingu fóru allir í náttföt, sóttu sér teppi og kodda og horfðu á bíómynd niðri í sal. Í hléi var boðið upp á kex, popp og djús. Stúlknahópurinn fór því nokkuð seint að sofa í kvöld en allir sáttir og glaðir eftir góðan dag.
Myndir má sjá á tenglinum
hér.
kveðja,
Auður Páls forstöðukona