Við vöknuðum á ljúfum nótum eftir góðan svefn. Stúlkurnar komu í morgunmat syngjandi lagið "sokkar á tásur og langermapeysur" með forstöðukonuna í farabroddi. Í morgunmat var hefðbundið seriós, kornflex og hafragrautur og nýbakaðar skonsur slógu í gegn. Eftir fánahyllingu var skipt í hópa sem undirbjuggu messuna sem var eftir hádegi í Hallgrímskirkju; einn hópur skreytti kirkjuna, annar undirbjó helgileik, þriðji samdi bænir, sá um að hringja kirkjuklukkum, afhenda bækur og útbúa kókoskúlur sem voru í kvöldkaffinu, en sá fjórði undirbjó og æfði söng sem fluttur var í messunni. Stundin í kirkjunni var yndisleg og að henni lokinni beið okkar ljúffengt kaffi. Ekki varð úr buslferð í lækinn þar sem sólin hætti skyndilega við og skýin hrúguðust yfir okkur en þess í stað var brennó og húla-keppni. Grjónagrauturinn fékk gríðarlega góðar móttökur í kvöldmatnum og flatkökur með hangikjöti og kæfubrauð settu punktinn yfir i-ið. Eftir kvöldvöku og hugleiðingu tók við dúndrandi náttfatapartí sem lauk með skemmtiatriðum foringja en síðast var lesin saga fyrir allan hópinn. Þetta var frábær dagur og sofnuðu stúlkurnar fljótt og vel enda þreyttar og sælar.
Myndir má sjá
hér.
Kveðja, Auður Páls forstöðukona