Stelpurnar voru vaktar við söng klukkan 08:30. Veisludagurinn var runninn upp. Eftir morgunmat var biblíulestur þar sem fjallað var um krossdauða Jesú og upprisu hans. Með krossdauða Jesú veitir Guð okkur eilíft líf sem hefst nú og um alla eilífð. Síðan var biblíu-spurningakeppni þar sem allar stelpurnar voru þátttakendur. Eftir bilíulesturinn var brennókeppni, þar sem brennómeistararnir, liðið ,, Ananas“ spilaði við foringjana. Það var mikil spenna í loftinu en foringjarnir sigruðu stelpurnar. Þá spiluðu foringjarnir við allar stelpurnar í flokknum og unnu þann leik líka. Í hádegismat var boðið upp á pastarétt og síðan fengu allar stelpurnar að fara í pottinn og í sturtu. Þær pökkuðu niður og gengu frá sínu dóti og síðan var farið í veislufötin. Veislukvöldverður var síðan fram borinn klukkan 17:30 og þar voru veitt verðlaun fyrir allt mögulegt, íþróttir, hárgreiðslu og hæfileikakeppni. Það voru einnig veittar viðurkenningar og fleira. Eftir kvöldmatinn var kvöldvaka og þar léku foringjar leikrit af sinni alkunnu snilld. Endað var með hugleiðingu um vináttu Jesú og lögð áhersla á að Jesús er besti vinur allra barna.
Kvöldið heppnaðist vel og ánægðar stelpur kvöddu foringjana sína með söknuði. Það voru ansi margar stelpur sem felldu tár. Staðurinn Ölver er greinilega búinn að snerta við hjörtum margra telpna. Ætli þarna í hópnum sé ekki efni í framtíðar- foringja, það kæmi ekki á óvart J
Ég þakka fyrir mig og góða samveru þessa vikuna og bið Guð að blessa allar stelpurnar sem voru í 4 .flokk í Ölveri sumarið 2009.