Þessi Drottins dagur hófst með því að sólin tók á móti ósköp þreyttum stúlkum kl. 8:30. Eftir morgunverð, fánahyllingu og Biblíulestur, þar sem við fjölluðum um ,,Faðir vor“ og sálm 23 auk þess sem við flettum upp Matt. 6:9, var lokaleikur í brennókeppninni, þar sem vinningsliðið keppti á móti foringjunum. Það var virkilega skemmtileg viðureign að sögn stúlknanna og síðan kepptu allar stúlkurnar saman á móti starfsfólki!

Heiti potturinn tók við eftir hádegi, því allar stúlkur eiga að koma hreinar heim. Síðan hófst hárgreiðsla og mikið hár hefur verið fléttað hér í dag. Stúlkurnar hafa verið spariklæddar um alla landareignina í góða veðrinu eftir að hafa lokið við að pakka og tæma herbergin sín.

Veislukvöldið hófst með hátíðlegum kvöldmat, þar sem stúlkurnar sátu við minni og skreyttari borð en vanalega. Að lokinni máltíðinni var síðan verðlaunaafhending og það er gaman frá því að segja að í þetta sinn fengu allar stúlkur viðurkenningu!

Kvöldvakan tók síðan við með tilheyrandi sprelli foringjanna, leik og söngi. Þetta hefur verið skemmtilegur og mjög fjörugur flokkur stúlkna, nokkuð hefur lækkað í plástrabyrgðum okkar í Ölveri, en engin stærri óhöpp hafa átt sér stað. Veðrið hefur leikið við okkur og ekki komið dropi úr lofti.

Þakka fyrir lánið á þessum skemmtilegu stelpum, minni á yngri deildir KFUK um allt land sem hefjast í september í hverfunum og vona að stúlkurnar nýti sér það veganesti sem við höfum boðið þeim upp á í fræðslu, leik og starfi.

Kær kveðja og ósk um áframhaldandi gott sumar með fjölskyldum,
Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona 6. flokks.