Veðrið var milt og fallegt í dag. Telpurnar voru vaktar klukkan 08:30 og í morgunmat fengu þær sem vildu coca-puffs. Eftir morgunmat var fáninn hylltur og síðan skiptum við öllum hópnum upp í litla hópa til að undirbúa guðsþjónustu í Ölveri. Í hádegismat voru kjúklingabitar og borðuðu þær með bestu lyst. Eftir matinn eða klukkan 13:30 hófum við guðsþjónustuna. Einn hópur hafði skreytt salinn og samið bænir til að lesa í guðsþjónustunni, einn hópur lék leikritið um týnda soninn, einn hópur dansaði og sönghópur söng þrjú lög. Þetta tókst mjög vel og stelpurnar sýndu þessu mikinn áhuga og gerðu þetta ákaflega vel. Ein í hópnum átti afmæli, Ása Hrönn, var sjö ára og í lok stundarinnar fékk hún að bjóða öllum stelpunum sleikjó sem hún kom með að heiman. Í kaffitímanum var síðan sungið fyrir hana og framborin afmæliskaka með nafninu hennar og sjö kertum sem hún fékk að blása á. Eftir kaffi var boðið upp á val. Annars vegar var boðið upp á að fara niður í laut þar sem farið var í leiki og hins vegar fjársjóðsleiðangur en hér í nágrenni Ölvers eigum við Ölversstelpur fjársjóð grafinn í jörð. Allt gekk þetta ljómandi vel og stelpurnar glaðar. Í kvöldmat var boðið upp á aspassúpu og brauð og síðan var kvöldvaka um kvöldið. Bænakonunurnar fóru inn til telpnanna um klukkan 21:30 og ró var komin í skálann um hálf ellefu.
Engin alvarleg heimþrá hefur komið upp, þær sofna fljótt á kvöldin, dauðþreyttar eftir daginn. Þær taka þátt í öllu sem boðið er upp á með jákvæðni og bros. Það er alltaf gaman að vera með þannig telpur í sumarbúðum. Starfsfólkið er til mikillar fyrirmyndar og sinnir börnunum af mikilli natni og þolinmæði. Ölver er yndislegur staður í fallegu umhverfi og hér er gott að dvelja. Ég vona að allar telpurnar komi heim með bros á vör eftir ánægjulega og eftirminnilega dvöl.

Ragnhildur Ásgeirsdóttir, forstöðukona