5.dagur
Stelpurnar vöknuðu hressar klukkan hálf níu á fallegum laugardegi. Þær snæddu morgunverð og fóru í fánahyllingu eins og vanalega. Að biblíulestri loknum tók við úrslitakeppnin í brennó og var hetjulega barist um titilinn. Liðið sem vann keppnina mun svo fá verðlaun á veislukvöldi. Í hádegismatinn var grjónagrautur og brauð með eggjum ofl. Eftir hádegi var haldið í hersingu niður að Hafnará þar sem stelpurnar óðu út í, busluðu og léku sér. Sólin þó lét ekki á sér kræla fyrr en um kaffileitið og þá varð enn heitara úti. Í kaffinu var boðið upp á nýbakaðar bollur, köku og tebollur með súkkulaði og að því loknu fóru allir út í góða veðrið til að keppa í íþróttakeppnum dagsins. Keppt var í pokahlaupi og svo tók við sippkeppni þar sem sippa átti sem oftast á 30 sekúntum. Þegar keppnunum var lokið fór Hlíðarver að undirbúa leikrit sem sýnt var á kvöldvökunni meðan hinar stúlkurnar dembdu sér í pottinn í góða veðrinu. Í kvöldmat voru dýrindis hamborgarar og franskar með því. Á kvöldvöku kvöldsins var litaþema – fjólublátt og bleikt – og klæddust stelpurnar allar öðrum hvorum litnum. Við sungum, horfðum á skemmtiatriði og heyrðum fallega sögu um tvær systur sem vildu gera allt fyrir hvora aðra. Þegar allir voru komnir í háttinn heyrðist skyndilega tónlist út úr matsalnum og stelpunum til mikillar gleði var komið að náttfatapartýi. Þar brugðu á leik kjúklingur, belja, kind og Mína Mús. Eftir mikinn dans og leiki birtist allt í einu tröllkarl úr fjallinu sem bjó til popp fyrir stelpurnar. Svo var farið á ljónaveiðar og við fengum að heyra sögu um Svarta riddarann. Eftir langan og góðan dag sofnuðu stúlkurnar svo með bros á vör.
Salvör Þórisdóttir, foringi