Stjórn Ölvers hefur ákveðið að bjóða félagsfólki í KFUM og KFUK tilboð fyrir stúlkur 6-8 ára í Krílaflokk, en þetta er stuttur flokkur sem stendur yfir í rúma þrjá sólarhringa. Forstöðukona er enginn önnur en Jóhanna Sesselja Erludóttir 31 árs sálfræðingur og æskulýðsfulltrúi í Grensáskirkju.
Nánar um flokkinn:
9. flokkur sumarstarfsins í Ölveri, svokallaður Krílaflokkur, er frábrugðinn öðrum flokkum en þar fá stelpur á aldrinum 6-8 ára að spreyta sig í því að fara að heiman í nokkra daga í traustu og vernduðu umhverfi sumarbúðanna. Fleiri starfsmenn eru á hverja stúlku en aðeins 30 stúlkur geta verið í flokknum í umsjá 8 starfsmanna, auk yngri sjálfboðaliða sem liðka til. Góð reynsla hefur verið af Krílaflokk undanfarin ár og stelpurnar hafa skemmt sér konunglega og nær allar komið aftur í lengri flokka síðar.
9. flokkur er dagana 28.-31. júlí nk. og munu stelpurnar halda af stað í Ölver kl. 11 á brottfarardegi og koma til baka á sama tíma þann 31. júlí. Því koma stelpurnar tímanlega heim fyrir verslunarmannahelgina. Skráning fer fram í þjónustumiðstöð KFUM og KFUK í síma 5888899.