Enn einn fagur morgunn rann upp hér í Vindáshlíð. Stelpurnar gátu valið Cocopuffs í morgunmat og var það nánast á hverjum diski! Síðan var fáninn dreginn að húni og fánasöngurinn hljómaði í morgunkyrrðinni. Á Biblíulestri var sagan um miskunnsama Samverjann leikin og sögð. Stelpurnar voru hvattar til að hjálpa og styðja aðra. Einnig var áherslan á Jesú Krist sem sýndi kærleika, vann kraftaverk og kenndi. Stelpurnar völdu síðan að teikna eða sýna atriði úr frásögninni. Í hádeginu var útigrill og pylsunum gerð góð skil. Um tvöleytið var komið að Hlíðarhlaupinu en þá spretta stelpurnar eins og þær geta niður að hliði og tíminn er tekinn. Svo var farið í réttirnar hinum megin við veginn og þar var farið í leiki. Eftir kaffi, kleinur og döðlubrauð, var útivera, leikir í íþróttahúsi og broskeppni. Í kvöldmat var súrmjólk með ávöxtum og skinku- og pizzahorn, volg og góð. Eftir kvöldvöku og hugleiðingu, þar sem lögð var áhersla á að fyrirgefa þeim sem gera e-ð á okkar hlut eins og Jesús kennir okkur, var óvænt náttfataprtý! Foringjar brugðu á leik, mikið var sungið og allar fengu frostpinna. Kyrrð var komin á rétt eftir miðnætti.