Nú er næstsíðasti dagur þessa skemmtilega flokks að kveldi kominn. Í morgun völdu stúlkurnar sér hóp; dans-, söng-, skreyti- eða bænahóp. Hver hópur undirbjá ákveðna messuliði fyrir guðsþjónustuna sem við höfðum síðan eftir hádegi. Það var gaman að vinna með þeim og mikill metnaður sem þær lögðu í verk sín. Vel var borðað af pylsupasta í hádeginu og inn á milli dagskrárliða undirbjuggu stúlkurnar sig fyrir hæfileikakeppnina.
Guðsþjónustan hófst á hefðbundinn hátt, en ég útskýrði jafnóðum ýmsa messuliði, svo sem tónið og miskunnarbænina auk messuskrúðans sem ég klæddist samkvæmt hefðinni. Þetta var falleg stund sem allar stúlkurnar tóku virkan þátt í. Bleiku vöfflurnar voru sérlega vinsælar í kaffitímanum. Eftir veisluna var frjáls tími til að undirbúa fyrir keppni kvöldsins og síðan var ratleikur um alla lóð. Liðin voru misfljót að ljúka ratleiknum og verður gaman að sjá hvaða lið vinnur hann, en úrslit allra keppnisliða verða gerð ljós á morgun í verðlaunaafhendingunni.
Heiti potturinn var vinsæll í dag, þar skapast alltaf svo skemmtilegar umræður. Eftir súpu og heimabakaðar bollur hófst kvöldvakan með öllu sínu sprelli. Foringjarnir hér komu uppáklæddar inn með fjörugt Spice girls atriði og voru síðan kynnar í hæfileikakeppninni. Margt skemmtilegt var sýnt þar og best er að skoða myndir dagsins til að fá nasasjón af fjölbreytileikanum. Hugleiðingin var á sínum stað og að loknu lokalagi kvöldsins fengu stúlkurnar eplabita og höfðu sig síðan til fyrir háttinn.
Með ósk um góða nótt okkur öllum til handa og góðan dag að morgni,
Ása Björk, forstöðukona.