Það voru ljúfar og kurteisar stúlkur sem mættu í Ölver um hádegisbil í dag. Auðveldlega gekk að skipta þeim á herbergi og síðan borðuðu þær grjónagraut og brauð. Eftir matinn var farið að rannsaka umhverfið, en gönguferð dagsins var einmitt um landareignina. Eftir kaffi hófst íþróttakeppnin. Síðan var frjáls tími sem stúlkurnar notuðu til að kynnast. Settar voru upp hárgreiðslustofur, nuddstofur og bangsapössun. Sætara gerist það varla! Einnig var boðið upp á að föndra, t.d. með perlum eða að teikna og lita myndir.
Við fengum heimsókn frá ungum mönnum sem eru að gera kynningarmynd um sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK og tóku þeir myndir af stúlkunum í hengirúminu okkar sem er hið stærsta á Íslandi. Í kvöldmatnum hreinlega hurfu kjötbollurnar ofan í stúlkurnar og allt meðlæti með. Það var margt gert á kvöldvökunni. Mikið var sungið, farið í leiki, foringjar sýndu leikrit og að lokum var flutt hugleiðing um Sakkeus og Jesú. Eftir ávaxtabita höfðu stúlkurnar sig til fyrir nóttina og bænakonur þeirra fóru með þeim inn á herbergi að lesa og biðja. Góður dagur í alla staði.
Með kærri Ölverskveðju,
Ása Björk Ólafsdóttir, forstöðukona