Í dag var VEISLUDAGUR haldinn hátíðlegur. Stúlkurnar voru ekki vaktar fyrren klukkan tíu! Eftir biblíulestur var framhald af "Furðuleikum" Kaldársels, en meðal áskorana voru sippukeppni, bangsakast og að rekja appelsínu með nefinu. Eftir hádegið var svo farið í búleik og síðar komu foringjar í kaffiboð út í hraun. Þess má geta að seinni partinn unnu foringjar mikið þrekvirki við að koma níðþungum hoppukastala inn í íþróttahús, með hendur sínar og bök sem einu verkfærin. Sem betur fer nutu stúlkurnar hins risavaxna uppblásna ferlíkis. Því næst klæddu allir sig í spariföt og fléttuðu hárið, þ.e. áður en haldið var inn í skreyttan matsalinn og veislukvöldverður snæddur (sem samanstóð af dýrindis flatbökum og spræti).
Eftir kvöldmat kom svo að því sem allar stúlkurnar höfðu beðið eftir; LEIKRITUM FORINGJA. Spennan í loftinu var gríðarleg og ég vil trúa því að engin hafi vonbrigðin verið þar sem foringjar fóru (að sjálfsögðu) á kostum með kakó- og tómatsósusulli, franska kokkinum sem seldi bara íbitna hamborgara og áskitnar pitsur og loks íssendlinum sem fór í læknisskoðun í alltof mörgum stuttermabolum. En síðast en ekki síst sló í gegn glænýtt Kaldársels lag. Lagið er betur þekkt við texta sænsku snillinganna í ABBA, en við tókum okkur skáldaleyfi og viljum meina að vel hafi tekist til:
Í Kaldárseli alltaf gaman er
Ójá, skemmtilegra’ en heima
Í Kaldárseli alltaf skemmti mér
Ójá aldrei mun ég gleyma
Ó manstu eftir Kaldá
Hellana fórum að sjá
Ó vá, kem pottþétt næsta sumar aftur
(Rakel Brynjólfs og Sigursteinn sömdu texta)