Það sem bar hæst þennan hlýja þriðjudag var stórgott lasagne, gönguferð í Valaból og svo HÁRGREIÐSLUKEPPNI. Gönguferðin í dag var örlítið lengri en í gær, en fljótlega heyrðust háværar raddir um snúna ökkla, magaverki, þorsta og fleira…setningar á borð við "ég er að deyja" voru nokkuð tíðar miðað við höfðatölu. Sem betur fer dó enginn, enda voru stelpurnar á endanum mjög ánægðar eftir komuna í Valaból, þar sem við settumst á grasbala, borðuðum nesti og fórum í leiki.
Eftir gönguferðina miklu var svo hárgreiðslukeppni í Selinu. Stúlkurnar greiddu sjálfar hárið á hvorri annarri og að lokum valdi dómnefnd foringja bestu hárgreiðsluna.
Eftir langa og skemmtilega kvöldkvöku, þar sem stelpurnar fóru á kostum, fengu þær svo allar kvöldsnarl og burstuðu að lokum tennurnar í Kaldá.
Myndir frá deginum í dag má nálgast á slóðinni fyrir neðan.