Í dag voru stelpurnar vaktar klukkan níu og voru dregnar út í morgunleikfimi. Vakti það mikla kátínu og stelpurnar voru duglegar að taka þátt. Eftir morgunmat var fánahylling og síðan biblíulestur þar sem þær fengu að læra um Rut sem við syngjum um í laginu ,, Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut“. Hún var sönn og góð og fylgdi trúföst tengdamóður til annars lands. Eftir stundina var farið í brennó og síðan var hádegismatur. Í hádegismat fengu þær kjúklinganagga, ofnsteiktar kartöflur og grænmeti. Eftir matinn var íþróttadagur og var keppt í hinum ýmsu íþróttum m.a. jötunfötu og broskeppni.
Stelpurnar eru svo duglegar og mikill kraftur í þeim þannig að nokkrar eru búnar að fá plástur hér og þar. En það er sem betur fer lítið grátið heldur bara bitið á jaxlinn. Eftir kaffi var haldið áfram með íþróttadaginn og síðan var kvöldmatur en þá var boðið upp á skyr og brauð. Á kvöldvökunni sem hófst klukkan 20:30 voru tvö herbergi sem léku leikrit og höfðu leiki. Þegar skemmtiatriðin voru búin var hugvekja um hve dýrmæt við erum í augum Guðs. Þegar við ætluðum að syngja lokalagið okkar var bankað á gluggann. Þá var mikið öskrað því við erum uppi á annarri hæð og stelpurnar vita að það er ekki létt að komast þangað upp. Í glugganum var ,,lúði“ og þegar betur var að gáð voru þrír lúðar hér hlaupandi um nágrennið. Stelpurnar hlupu allar út og náðu þeim fljótt og þá var slegið upp náttfatapartýi, þar sem var dansað, sungið og sögð saga. Stelpurnar fengu popp.
Þriðji dagurinn er liðinn og allt hefur gengið vel. Stelpurnar eru glaðar og hér starfa mjög góðir foringjar. Ráðskonan býr til góðan mat og vill allt fyrir alla gera og allir leggjast á eitt að gera dvölina sem ánægjulegasta fyrir stelpurnar. Það er svo ekki síst stelpunum að þakka að dagarnir eru hver öðrum skemmtilegri.
Ragnhildur Ásgeirsdóttir, forstöðukona