Í dag var vakið rúmlega níu. Allar voru stelpurnar þreyttar þegar þær voru vaktar enda dagurinn í gær viðburðaríkur. Eftir morgunmat var helgistund og síðan var frjáls tími fram að hádegismat. Í hádegismat fengu þær fiskrétt með hrísgrjónum og grænmeti. Eftir hádegi var hæfileikakeppni. Þar kenndi margra grasa. Stelpurnar komu fram með frábær atriði, m.a. dans, söng og fiðluleik. Tókst þetta virkilega vel. Eftir kaffi var brennókeppni og síðan heitur pottur. Leikherbergin undirbjuggu kvöldvökuna fram að kvöldmat. Í kvöldmat var jógúrt með ávöxtum, brauð, naggar og kjötbollur. Stelpurnar borðuðu vel. Kvöldvakan tókst vel, það var mikið hlegið og skemmtileg atriði sem stelpurnar komu með. Eftir kvöldvökuna var hermannaleikur og hér var öskrað, hlaupið, skvett vatni, æsingur og fjör. Þrjár fóru að gráta en jöfnuðu sig fljótt og tilkynntu að þær hefðu ekki verið hræddar heldur aðeins ,,of spenntar“. Ljósmyndarinn tók svo mikið af myndum að hann ætlar að búa til myndaseríu eingöngu með myndum úr hermannaleiknum.
Þetta var mjög skemmtilegur dagur og tókst með afbrigðum vel. Eftir hermannaleikinn fengu stelpurnar að setjast í náttfötunum sínum uppi í sal, við sungum saman og fengum að heyra sögu. Þær fengu nammipoka og allar fóru að sofa sælar og ánægðar með skemmtilegan dag.
Ragnhildur Ásgeirsdóttir, forstöðukona