Gærdagurinn var góður hér í Ölveri og stúlkurnar komu varla inn fyrir hússins dyr allan daginn, nema rétt til að borða og slíkt. Þær voru góðar í Biblíulestri morgunsins, eru margar búnar að læra að fletta upp ritningarstöðum í Nýja testamentinu. Við flettum upp textanum í Lúkasarguðspjalli 8:22-25. Endilega flettið honum upp!

Brennókeppnin hélt áfram fyrir hádegismat, enda komu þær glorsoltnar í hús eftir alla hreyfinguna. Eftir hakk og spaghetti fengu þær að vita að hæfileikakeppnin væri næsta dag, þannig að þær gætu farið að undirbúa sig og einnig náðu þær í það sem vantaði fyrir hárgreiðslukeppnina sem haldin var eftir hádegi hér úti á verönd. Það eru mjög skemmtilegar myndir á vefnum af hárgreiðslum og stoltum hárgreiðslumeisturum.

Eftir kaffi var broskeppnin haldin og náðu tvær stúlkur 9cm brosi sem er þokkalega góður árangur. Síðan var frjáls tími og útileikir, heiti potturinn opinn og einnig voru atriði æfð fyrir kvöldvökuna. Við fengum góða gesti þar sem Sveina, Sveinbjörg Heiðrún Arnmundardóttir, var með nokkrum fjölskyldumeðlimum. Auk þess að vera amma tveggja starfsmanna hér, var hún einnig ein af upphafskonum að stofnun Ölvers árið 1953 þegar búðirnar voru keyptar og sett var af stað sumarbúðastarf KFUK fyrir stúlkur. Starfaði hún við Ölver fram að sjötugu, eða þar til fyrir tólf árum. Var hún með okkur á kvöldvökunni sem heppnaðist vel í alla staði. Þess má geta að stúlkurnar settu met í pizzuáti í kvöldmatnum!

Sólarkveðjur úr Ölveri eftir enn einn góðan daginn
Ása Björk forstöðukona.