Nú er þriðji dagur okkar í 6. flokki að kvöldi kominn. Fastir liðir hafa allir gengið vel, stúlkurnar eru áfram fjörugar og jafnframt jákvæðar. Eftir hádegi var farið í ratleik, þar sem úrræðagóðar stúlkurnar nutu sín og sumir hóparnir tóku sér mjög góðan tíma í að ná svörunum réttum. Eftir drekkutímann var keppt í víðavangshlaupi, stígvélasparki og pokahlaupi.
Eldhúsið lagði til gult þema fyrir daginn. Gult morgunkorn að morgni, kjöt í karrý í hádeginu, bananar og pizzasnúðar auk köku með gulu kremi í kaffinu, gult skyr og alls kyns brauð að kveldi og að lokum var boðið upp á gul epli og fleiri ávexti fyrir nóttina.
Á kvöldvökunni léku stúlkurnar leikrit og stjórnuðu skemmtilegum leikjum. Einnig var mikið sungið og innihald sögu kvöldsins var um það að hver og ein okkar er óendanlega dýrmæt. Það var gott veganesti inn í nóttina.
Ég býð góða nótt á þessu óhemjufagra kvöldi hér undir Blákolli og þakka fyrir að fá að kynnast þessum dýrmætu stúlkum, þó ekki sé nema í eina viku. Starfsfólk vikunnar er einnig fyrsta flokks og því verður hver dagur eftirminnilegur.
Kær kveðja, Ása Björk forstöðukona.