3.dagur
Hvað er yndislegra en að vakna á nýjum degi sem kemur fagnandi úr hendi Guðs, heyra fuglasönginn, finna gróðurilminn og leyfa sólinni að kyssa andlit sitt? Í dag var yndislegt veður. Stelpurnar voru allar í góðu skapi, léku sér mikið úti , hlógu og skemmtu sér vel saman. Þær voru vaktar klukkan 08:30 og morgunmatur klukkan 9. Eftir morgunmat var fánahylling og síðan biblíulestur þar sem þær fengu að heyra söguna um Rut sem var svo sönn og góð og Daníel sem var fylltur hetjumóð. Eftir biblíulestur var útivera fram að hádegi en í hádegismat var boðið upp á kjötbollur sem þær borðuðu með bestu lyst. Eftir hádegismatinn var farið í göngutúr út að stóra steini og þar var farið í leiki. Éftir kaffitímann fóru stelpurnar í pottinn og í sturtu og Hamraver æfði leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn var skyr og brauð. Kvöldvakan hófst klukkan 20 og það var mikið sungið og stelpurnar mjög hressar og kátar. Harmaver sýndi leikrit og síðan endaði Valdís foringi kvöldið með hugleiðingu um fyrirgefninguna. Ró var komin í skálann fyrir ellefu.