Héðan frá Ölveri séð skartar Snæfellsjökull sínu fegursta. Það hefur verið yndislegt veðrið í dag og telpurnar búnar að vera úti í allan dag. Við vöktum þær klukkan 08:30 og morgunmatur klukkan 9. Eftir morgunmat var fánahylling og síðan bilíulestur þar sem þær fengu að heyra margar sögur af Jesú, kraftaverkum hans og boðskap. Minnisvert dagsins var ,, Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá“. Stelpurnar eru áhugasamar, hlusta vel og taka þátt í söng af lífi og sál. Eftir biblíulesturinn var síðan brennókeppni og síðan hádegismatur en í dag var boðið upp á Lasagna. Eftir hádegismat var hárgreiðslukeppni úti þar sem stelpurnar vönduðu sig og settu upp Gala-greiðslur með blómum, spennum og spöngum. Eftir kaffitímann var síðan hæfileikakeppni úti í laut og þangað komu tveir furðufuglar frá annarri plánetu í heimsókn og tóku að sér að kynna keppnina. Stelpurnar tóku flestar þátt í keppninni, sumar með fleiri atriði en eitt. Það var m.a. sungið, dansað, fimleikasýning, brak í nefi og leikrit. Í kvöldmatinn voru pylsur og pylsubrauð og stelpurnar voru duglegar að háma matinn í sig. Á kvöldvökunni skemmtu telpurnar í Skógarveri hinum með skemmtilegum leikritum og leikjum. Salvör endaði kvöldið með hugleiðingu um vináttuna og fjallaði um Jesú og einn af lærisveinum hans, Pétur.
Stelpurnar okkar voru þreyttar í kvöld og ró var komin í skálann rúmlega ellefu.