Í dag voru telpurnar vaktar klukkan níu og eftir morgunmat var fánahylling. Eftir Biblíulestur var brennó og það styttist í að við verðum komnar með brennómeistara. Eftir brennó var hádegismatur og þá var boðið upp á pastarétt og heimabakað brauð. Eftir hádegi var farið í göngutúr og síðan fundum við Ölvers-fjársjóðinn sem er búinn að vera grafinn í jörð frá árinu 2004. Þær voru spenntar yfir þessu. Þegar heim í skála var komið þurftu allar að búa til vegabréf til að komast inn í Ævintýraland. Allar komust inn og þar hittu þær Þyrnirósu, Krók skipstjóra, Gullbrá og draug sem vafraði um á eftir þeim með furðulegum hljóðum. Það var mikið öskrað og mikið hlegið. Eftir kaffitímann var farið í pottinn og leikherbergin undirbjuggu atriði fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmat fengu stelpurnar hamborgara og franskar kartöflur.
Á kvöldvökunni voru leikin skemmtileg leikrit og einnig leikir. Þegar henni var lokið var farið í kvöldgöngu og endað úti í íþróttahúsi þar sem við fengum að sjá par dansa samkvæmisdansa en Þóra foringi er að læra samkvæmisdansa. Þetta var rosalega flott hjá þeim og skemmtilegt fyrir stelpurnar að sjá. Þær fóru síðan að bursta tennurnar og upp í rúm. Ró var komin í skálann um miðnætti.
Enn einn skemmtilegi dagurinn liðinn og allar stelpurnar glaðar og ánægðar í lok dagsins.
Ragnhildur Ásgeirsdóttir, forstöðukona