Á öðrum degi var farið í leikinn Amazing Race þar sem stelpurnar söfnuðu stigum með því að gera mis erfiða hluti. Sumar hlupu niður að hliði, sumar gerðu margar armbeygjur og aðrar leystu úr sudoku þraut. Mikil stemning og mikill ærslagangur. Brennóið hélt áfram og keppt var í rúsínuspítingum. Á kvöldvöku var spurningarkeppnin Éttu hnetur þar sem foringjar léku fyndna kynna og reyndi á stelpur í ýmsum þrautum og spurningum. Um kvöldið var náttfatapartý þar sem brjálaður vísindamaður, aðstoðarmaður hans og vélmenni komu í heimsókn og gáfu stelpunum frostpinna.
Dagurinn var bleikur og blár dagur og stelpurnar voru hvattar til að mæta í þeim litum. Svo fengu þær bleikar bollur og sjónvarpsköku með blárri skreytingu. Það var líka 1. apríl svo stelpurnar fengu leyfi til að gabba hvora aðra.
Um morguninn fengu stelpurnar fræðslu um hvernig Biblían er ljós í lífi okkar því hún er full af orði Guðs. Á hugleiðingu fengu þær að heyra um þakklæti.
Það hefur verið áberandi lítið um heimþrá þessar tvær nætur. Þetta er skemmtilegur hópur af stelpum.
Ég minni á að ef foreldrar vilja fá að tala við forstöðukonu um börnin sín þá er símatími klukkan 11:30-12:00, en þá byrjar hádegismatur.