Dagurinn hjá stelpunum í 3.flokk í Ölveri byrjaði eins og flestir dagar. Stelpurnar voru vaktar í morgunmat, síðan var tiltekt í herbergjum fram að biblíulestri og að biblíulestri loknum var farið í brennó. Þegar öll liðin höfðu keppt einn brennóleik þá beið stelpnanna þessi líka ljúffenga gúllas-súpa. Stelpurnar borðuðu hana með bestu lyst. Eftir hádegismat fengu stelpurnar loksins að prufa hoppukastalann sem ekki var hægt að nota á 17.júní vegna veðurs.
Í kaffitímanum var boðið upp á bollur, vínarbrauð og kökur. Að kaffitímanum loknum héldum við í Ölveri okkar eigið kvennahlaup þar sem að stelpurnar munu missa af því á laugardaginn. Eftir hlaupið var frjáls tími, sumar fóru í hoppukastala á meðan aðrar fóru í heita pottinn eða undirbjuggu leikrit fyrir kvöldvöku.
Í kvöldmat var svo pastaréttur og hvítlauksbrauð. Stelpurnar fóru flest allar út að leika sér eftir kvöldmat í veðurblíðunni, en núna stendur yfir kvöldvaka þar sem að Hamraver sér um skemmtiatriði.
Allt hefur gengið mjög vel og erum við starfsfólkið sammála um að þetta sé algjör draumaflokkur. Stelpurnar borða vel, eru hressar, jákvæðar og ótrúlega prúðar.
Hér að neðan er hægt að ýta á link til þess að sjá myndir frá deginum í dag.
Ölverskveðja,
Þóra Björg, foringi