Nýr hópur frábærra stelpna kom með rútunni rétt um hádegið í gærdag. Eftir að hafa komið sér fyrir og borðað hádegismat söfnuðust þær saman niðri á velli og fóru í nokkra vel valda leiki auk stuttrar gönguferðar.
Á kvöldvökunni sýndu nokkrir leiðtogar lítið leikrit og voru með leik þar sem stelpurnar kynntu sig.

Í morgun var vakið með hinu sígilda "hæ, hó, jibbíjei" lagi í tilefni þjóðhátíðardagsins.
Eftir hádegismat klæddu 3 leiðtogar sig upp í búninga og fóru með stelpurnar út í íþróttahús að dansa, hlaupa og hamast. Hitinn þar varð nær óbærilegur svo að við héldum hamaganginum áfram niðri á velli í úrhellisrigningu.
Þegar inn var komið beið okkar skreyttur salur, heitt kakó og rosa flott fánakaka.
Eftir kaffið fórum við í Bingó með allskonar skemmtilegum vinningum og síðan skruppu stelpurnar í pottinn.
Núna stendur yfir kvöldvaka en í kvöld sér Fjallaver um atriðin.