Stelpurnar undirbjuggu guðþjónustu fyrir hádegi og svo var hátíðleg guðþjónustan klukkan 2 og tóku allar þátt á einn eða annan hátt. Leikhópurinn sýndi söguna af Jesú í storminum, sönghópurinn kenndi lagið Með Jesús í bátnum og söng auk þess Gleði gleði og Skapa í mér hreint hjarta. Skreytingarhópurinn bjó til og hengdi upp myndir í kirkjunni og undirbúningshópur sá um söngbækur, hringdi kirkjuklukkum, kveikti og slökkti á kertum og gerði kærleikskókoskúlur.
Nokkur lið eru nú dottin út úr brennókeppninni og spennandi er að sjá hvaða lið mun standa eftir sem brennómeistarar. Keppt var í rúsínuspítingum og úrslitin úr limbóinu eru ráðin.
Á kvöldvökunni voru Furuhlíð og Víðihlíð með atriði, sýndu Vitlausa strákinn og Jón blinda frænda. Svo var subbuleg leit að rúsínu sem vakti mikla lukku. Sunginn var sægur að lögum.
Þegar stelpur áttu að vera komnar upp í rúm mættu foringjar með söng og börðu í potta og buðu í náttfatapartý, var þar mikil stemning, dansað uppi á borðum, farið í leiki og svo kom brjálaður vísindamaður í heimsókn með vélmennið sitt og aðstoðarmann sinn og þeir gafu stelpunum frostpinna.
Í morgunmatin fengu þær morgunkorn, þar á meðal kókópuffs í tilefni af sunnudeginum. Í hádegismat var lambalæri með öllu tilheyrandi, í kaffinu var brúnterta, í kvöldmatinn var búðingur og brauð og í kvöldkaffinu var matarkex og kakómalt í mjólk.
Í guðþjónustunni heyrðu þær útleggingu á sögunni um Jesú í storminum og hvernig hann getur enn í dag lægt storma í okkar eigin lífi. Um kvöldið heyrðu þær um hvernig traustur vinur væri.
Það var sýnishornaveður, með rigningu og mikilli sól á víxl.