Senn fer starfssemi sumarstarfsins á fulla ferð og nú eru yfir 2500 börn þegar skráð í sumarbúðir og leikjanámskeið KFUM og KFUK. Það er því víða mikil tilhlökkun hjá börnum að taka þátt í spennandi og skemmtilegri dagskrá sem í boði verður í sumar.
Mikil tilhlökkun er líka hjá starfsmönnum sumarstarfs KFUM og KFUK, sem undirbúa sig af kappi fyrir verkefni sumarsins.
Undirbúningur starfsmanna er nú í fullum gangi og felst meðal annars í því að sækja fjölmörg námskeið til þess að vera betur í stakk búin að sinna þeim fjölbreyttu verkefnum sem starfsmenn sumarbúðanna þurfa að sinna.
Meðal þeirra námskeiða sem starfsmenn sumarstarfsins sækja eru:
- Hjálp í viðlögum
- Brunavarnir
- Verndum þau (um einkenni ofbeldis gagnvart börnum og rétt viðbrögð).
- Kynning á fræðsluefni KFUM og KFUK
- Sérstakt námskeið fyrir starfsfólk Gaurflokks Vatnaskógar
- Aðstæður á hverjum stað kynntar
- Hvernig aðstoða ég börn sem eiga erfitt
- Hvernig tala ég yfir hóp
- Áfallaferlar innan KFUM og KFUK