Á laugardaginn þann 9. maí var síðasta þaksperran fest og af því tilefni buðu Skógarmenn til móttöku – risgjalda.

Ólafur Sverrisson formaður Skógarmanna bauð gesti velkomna og lýsti framgangi verksins.

Björn Gíslason frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjvíkurborgar og Tómas Torfason formaður KFUM og KFUK á Íslandi fluttu ávörp.

Síðan var síðasta sperran negld og fest og voru það fjórir valinkunnir menn sem það gerðu en þeir voru Sverrir Axelsson sem hefur staðið vaktina við uppbyggingu Vatnaskógar í áratugi, Stefán Jónsson einn af öflugustu sjálfboðaliðum við húsbyggingjuna, Jónmundur Ásbjörnsson yfirsmiður og Dagur Adam Ólafsson sem var nýfæddur þegar faðir hans negldi síðustu þaksperruna í Birkiskála I.

Að lokum flutti sr. Jón Ómar Gunnarsson æskulýðsprestur blessun og bæn
Á eftir var boðið í kaffiveitingar í Matskála.