KFUM og KFUK í Reykjanesbæ var færð góð gjöf í gær sunnudaginn 15. mars.
Hjónin Ólafur Guðmundsson og Guðlaug Bárðardóttir færðu starfinu glæsilegan ljósakross úr stáli til minningar um son sinn Rúnar Bárð sem lést í nóvember árið 1998. Krossinn hefur verið settur upp í félagsheimilinu Hátúni 36.
Rúnar Bárður var einn af leiðtogum starfsins í Keflavík um árabil og ein helsta driffjöður við að byggja upp starfsstöðina í Reykjanesbæ, Rúnar var einnig öflugur sjálfboðaliði við starfið í Vatnaskógi.
Það var fjölmenni, bæði ættingar og vinir Rúnars sem heimsóttu starfstöðina í Reykjanesbæ í gær en Rúnar hefði orðið 47 ára þann dag. Fulltrúi stjórnar KFUM og KFUK í Reykjanesbæ Sveinn Valdimarsson flutti ávarp, foreldar Rúnars afhentu síðan hina góðu gjöf. Sr. Petrína Mjöll Jóhannsdóttir og Óskar Birgisson fluttu að lokum bæn. Á eftir var viðstöddum boðið í glæsilegt kaffi.