Föstudaginn 6.mars 2009 var rokkóperan !HERO eftir Eddie DeGarmo og Bob Farrell frumsýnd í Loftkastalanum. Það var KFUM og KFUK á Íslandi sem átti veg og vanda að uppfærslunni.

Aðalhlutverk voru 9 og auk þess 16 dansarar og 20 manna kór. Alls komu um 70 manns að sýningunni þegar allt var talið.
Mikill metnaður var lagður í að öll umgjörð sýningarinnar yrði sem best. Fagfólk á hverju sviði fyrir sig starfaði á bakvið tjöldin við leikmynd, búninga, förðun, tæknimál og fl.

Tónlistarflóran í verkinu var fjölbreytt og spannaði allt frá rokki og rappi yfir í popp og fallegar melódíur. En !HERO var ekki bara tónlistarveisla, sagan lifnaði við á sviðinu í gegnum leik, söng og dans og gerði þetta að einstæðri leikhúsupplifun. Tónlistin, sagan og boðskapurinn var sett fram á kröftugan og einlægan hátt. Sýningin kallaði á viðbrögð áhorfenda við því sem var að gerast á sviðinu.

Rokkóperan !HERO fjallar um ef Jesús hefði fæðst á okkar tíma í Betlehem í Pennsylvaníu. Heimurinn sem við sjáum í verkinu er gjörólíkur þeim heimi sem við þekkjum, heimur þar sem Jesús hefur aldrei verið til. Stjórn heimsins er í höndum ICON, alþjóðlegs ríkjabandalags. Inn í þennan heim fæðist drengurinn Hero (Jesús) í Betlehem í Pennsylvaníu. Hann neyðist til að flýja til Brooklyn, New York ásamt fjölskyldu sinni. Þar vex hann úr grasi og byrjar að prédika til fólksins, segir þeim að elska óvini sína og boðar nýtt konungsríki sem er ekki af þessum heimi. Þessi framganga hans vekur athygli yfirvaldaog óttast þeir þau áhrif sem boðskapur hans gæti haft. Þeir leggja því á ráðin um að losa sig við Hero. Inn í söguna fléttast persónur sem við þekkjum úr guðspjöllunum á borð við Maggie (Maríu Magdalenu), Jude (Júdas), Petrov (Pétur) og Mama Mary (María Mey).

Með aðalhlutverk fóru:
Hero: Sigursveinn Þór Árnason
Petrov: Eiríkur Hilmar Rafnsson
Jude: Þorleifur Einarsson
Maggie: Ingunn Huld Sævarsdóttir
Mama Mary: María Magnúsdóttir
Devlin: Pétur Hrafnsson
Kai: Sigurður Ingimarsson
Hunter: Sævar Daníel Kolandavelu / Poetrix
Jairus: Davíð Tómas Tómasson / Dabbi T.
Að auki: 20 manna kór sem er einnig í hóphlutverkum og 16 dansarar.

Lifandi tónlist var á öllum sýningum og hljómsveitina skipuðu:
Jóhann Axel Schram Reed – hljómborð
Benedikt Daníel Valdez – hljómborð
Helgi Reynir Jónsson – Gítar
Björgvin Birkir Björgvinsson – Gítar
Árni Rúnar Inaba – Bassi
Gunnar Leó Pálsson – Trommur

Leikstjóri : Rakel Brynjólfsdóttir
Tónlistarstjóri: Jóhann Axel Schram Reed
Dans og sviðshreyfingar: Petra Pétursdóttir
Tæknistjórn: Arnór Heiðarsson
Fjármálastjóri: Guðmundur Karl Einarsson