Föstudaginn 6.mars næstkomandi verður rokkóperan !HERO eftir Eddie DeGarmo og Bob Farrell frumsýnd í Loftkastalanum. Það er KFUM og KFUK á Íslandi sem á veg og vanda að uppfærslunni. Sýningin skartar landsþekktum söngvurum og tónlistarmönnum í aðalhlutverkum í bland við upprennandi stjörnur framtíðarinnar. Aðalhlutverk eru 9 og auk þess eru 16 dansarar og 20 manna kór. Alls koma um 70 manns að sýningunni þegar allt er talið.

Mikill metnaður er lagður í að öll umgjörð sýningarinnar verði sem glæsilegust. Fagfólk á hverju sviði fyrir sig starfar á bakvið tjöldin við leikmynd, búninga, förðun, tæknimál og fl. Markmið okkar er að setja á svið sýningu sem við og félagið getum verið stolt af. Mikil vinna er unnin bakvið tjöldin núna á síðustu vikunum fyrir frumsýningu, til þess að allt verði eins og best verður á kosið þegar stóra stundin rennur upp þann 6.mars. Æfingar hófust strax í haust hjá dönsurum og kór enda mikið verk sem leggst á þeirra herðar þar sem mikill dans og söngur er í verkinu. Aðalleikarar hófu svo æfingar snemma á nýja árinu og eru æfingar öll kvöld og um helgar. Æfingar hafa gengið mjög vel og það er
gríðarlega gaman að sjá þetta allt koma saman. Hópurinn sem tekur þátt í !HERO er samheldinn og einbeittur. Allir hafa það eina markmið að skapa eitthvað sem hefur aldrei sést áður á íslensku leiksviði, tónlistarveislu í bland við magnaða leikhúsupplifun og einstakan boðskap.

!Hero er ólíkur hinum hefðbundnu söngleikjum að mörgu leiti. Tónlistarflóran í verkinu er gríðarleg og spannar allt frá rokki og rappi yfir í popp og fallegar melódíur. En !HERO er ekki bara stórfengleg tónlistarveisla, sagan sem lifnar við á sviðinu í gegnum leik, söng og dans gerir þetta að einstæðri leikhúsupplifun sem á engann sinn líka í heimi þeirra söngleikja sem þú hefur áður séð.
!Hero heillar frá fyrstu mínútu. Tónlistin, sagan og boðskapurinn er sett fram á kröftugan og einlægan hátt. Sýningin kallar á viðbrögð áhorfenda við því sem er að gerast á sviðinu. Þetta er nútímaleg sýning full af lífi, dönsum og grípandi tónlist…allir geta fundið sitt uppáhaldslag þar sem fjölbreytileikinn er mikill. Atburðarásin er hröð og alltaf eitthvað í gangi á sviðinu.

!Hero er sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Það er einlæg von okkar að sem flestir leggi leið sína í Loftkastalann í mars og taki þátt í þessu ævintýri með okkur.
Sýningar verða einnig 14. og 15. mars
Nánari upplýsingar: www.hero.isMiðasala fer fram á www.midi.is.