Á föstudag verður frumsýnd rokkóperan !Hero í Loftkastalanum en ungmenni úr KFUM og KFUK setja verkið upp. Þetta er engin venjuleg sýning heldur sannkölluð tónlistarveisla, þar sem ýmsir þekktir tónlistarmenn taka þátt. Tónlistin spannar ýmsar tónlistarstefnur, popp, rokk, rapp og fallegar melódíur en tónlist og kröftugir dansar fléttast saman við mjög áhugaverðan söguþráð.
!Hero gerist í nútímanum eins og hann gæti hafa orðið ef að Jesú hefði aldrei fæðst. !Hero, tákngerfingur Jesú, fæðist í Betlehem í Pennsylvaníu og þarf að flýja til New York þar sem hann vex úr grasi og byrjar að predika til fólks að elska óvini sína. Hann boðar nýtt konungsríki sem er ekki af þessum heimi. Yfirvöld (ICON) eru að vonum ekki sátt við framgöngu !Hero og gera allt sem þau geta til að stoppa hann….tekst þeim það?
Sýningin er gríðarlega metnaðarfull og alls koma um 70 ungmenni að henni. !Hero heillar frá fyrstu mínútu. Tónlistin, sagan og boðskapurinn er sett fram á kröftugan og einlægan hátt. Þetta er nútímaleg sýning full af lífi, dönsum og grípandi tónlist. Atburðarásin er hröð og alltaf eitthvað að gerast á sviðinu. Eitt af því sem gerir sýninguna sérstaka er að öll tónlist er flutt „live“ við undirleik 6 manna hljómsveitar.
!Hero er sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Miðasala fer fram á
www.midi.is og er sýnt í Loftkastalanum á eftirtöldum dögum: 6. mars kl. 20:00, 14. mars kl. 17:00 og 15. mars kl. 17:00. Viðhengd er stutt kynning á sýningunni ásamt leiklista en einnig má nálgast allar upplýsingar og myndir frá æfingum á
www.hero.is.