Hátíðar- og inntökufundur KFUM og KFUK var haldinn í húsi félagsins að Holtavegi 28 fimmtudaginn 19. febrúar að viðstöddum 120 manns. Fundurinn hófst kl. 19 með hátíðarkvöldverði sem reiddur var fram af meistarakokkum frá veislumiðstöðinni Veislur og vín. Hátíðarræðu flutti forseti Evrópusambands KFUM Peter Posner , en hann ásamt fulltrúum úr stjórn Evrópusambands KFUM heiðruðu fundinn með nærveru sinni. Á fundinum voru þrjú félagssystkin heiðruð fyrir ósérhlífni og dugnað í starfi félagsins um áratuga skeið. Það voru þau: Sveinbjörg Arnmundsdóttir, Sigursteinn Hersveinsson og Emilía Guðjónsdóttir. Voru þau hyllt að athöfn lokinni, en öll voru þau máttarstólpar í æskulýðsstarfi félagsins um langt árabil, Sigursteinn í Kópavogi, Emilía í Keflavík og Sveinbjörg á fleiri en einni starfsstöð auk þess að bera uppi starfið í Ölveri um áratuga skeið. Í tilefni heiðursveitingar Sveinbjargar var stofnaður sjóður í hennar nafni, Sveinusjóður, sem ætlað er að safna í fé til leikskálabyggingar í Ölveri. Á hátíðarfundinum buðu formaður og varaformaður félagsins 45 ný félagssystkin velkomin í KFUM og KFUK á Íslandi. Þá fengu gestir fundarins að sjá atriði úr rokkóperunni Hero, sem verið er að setja upp á vegum félagsins. Sr. Guðni Már Harðarson endaði fundinn með hugvekju og stjórn fundarins var í höndum Gyðu Karlsdóttur, framkvæmdastjóra KFUM og KFUK á Íslandi. Fjöldi sjálfboðaliða kom að undirbúningi fundarins og eru þeim hér með færðar innilegar þakkir fyrir frábært kvöld. (GK)

Myndir frá hátíðarfundinum