Sunnudaginn 22. febrúar var haldinn hátíðarfundur í KFUM og KFUK á Akureyri. Í upphafi var boðið upp á ljúfenga kjúklingasúpu og brauð og síðan kaffi og marengstertu. Á samverunni var Þórey Sigurðardóttir gerð að heiðursfélaga KFUM og KFUK á Íslandi og Tómas Torfason formaður félagsins afhenti henni innrammað skjal því til staðfestingar og þakkaði henni fyrir trúfesti og þjónustu í þágu félagsins um áratuga skeið. Þórey var ráðskona við Hólavatn í 30 ár og lengst af var hún jafnframt forstöðukona í stúlknaflokkum. Þá var hún alla tíð mjög virk í vetrarstarfi KFUK. Þórey þakkaði af alhug fyrir auðsýnda hlýju og bað starfi KFUM og KFUK allrar Guðs blessunar.
Síðar þetta sama kvöld gengu þrír einstaklingar til liðs við félagið og samverunni lauk með hugvekju Bjarna Guðleifssonar. Mikil gleði ríkti meðal félagsfólks sem sótti samveruna og fóru allir ríkari heim.