Þann 1. janúar héldum við til Úkraínu. Að þessu sinni millilentum við í Kaupmannahöfn og gistum þar í eina nótt í KFUM og KFUM húsinu. Eftir góða næturhvíld lögðum við snemma af stað út á flugvöll. Þaðan lá leiðin beint til Kiev. Á flugvellinum tók dóttir Evheniys, dóttir prestsins sem sér um verkefnið í Úkraínu, á móti okkur. Við skoðuðum okkur um í Kiev og héldum til Kirovohrad seinna um daginn. Eftir þriggja tíma lestarferð komumst við loks á leiðarenda og þar tók Evheniy á móti okkur. Þaðan héldum við sem leið lá til prestsetursins í Subatsee en þar gistum við næstu daga á meðan dreifingu skókassa fór fram. Það voru því þreyttir ferðalangar sem lögðust til hvíldar þetta kvöld, en fullir eftirvæntingar að takast á við verkefni komandi daga.
Næsti dagur var tekinn snemma. Það var þó nokkur kuldi úti eða um -12° og voru það mikil viðbrigði miðað við milda veðurfarið heima á Íslandi. Við fórum og sóttum pakkana sem voru í geymslu skammt frá. Þaðan fórum við á stofnun þar sem munaðarlaus börn eru, en einnig börn foreldra sem ekki geta sinnt þeim sem skyldi.
Eftirvæntingin var mikil í augum barnanna og voru þau öll tilbúin að hjálpa okkur að koma pökkunum í hús. Búið var að skipuleggja söng og ljóðalestur fyrir okkur og var greinilegt að mikið hafði verið lagt í æfingar. Börn allt niður í 3-4 ára fóru með ljóð og tókst mjög vel til. Að því loknu var komið að því sem allir biðu eftir, útdeilingu pakkanna. Með sterkri stjórn forstöðukonunnar á heimilinu röðuð börnin sér upp og voru tilbúin að taka á móti gjöfunum. Gleðin í andlitum barnanna þegar þau fá pakkann í hendur er ólýsanleg og hvað þá ánægjusvipurinn þegar þau opna þá. Tannbursti og tannkrem er algjör fjársjóður og er eitt atvik mjög minnisstætt. Lítill strákur tók upp leikfangakarl og tannkrem á sama tíma. Það vildi svo til að á tannkreminu var mynd af Spiderman og það leið því ekki langur tími þangað til hann var farinn að láta tannkremið og leikfangakarlinn leika sér saman. Það má því segja að tannkremið hafi haft meira notagildi en bara að hreinsa tennur!
Næstu dagar fóru í dreifingu á hinum ýmsu stöðum, m.a. geðsjúkrahúsi og heimili fyrir andlega fötluð börn.
Á síðarnefnda heimilinu, sem er 2 tímum fyrir utan Kirovohrad, voru einstaklingar alveg upp í 35 ára. Við fengum að skoða aðstöðuna á heimilinu og voru nokkrir nemendur búnir að föndra handa okkur gjafir. Þegar við vorum búin að skoða okkur um vorum við leidd inn í sal þar sem okkur var sýnt leikrit. Leikritið var hátt í klukkutíma og var yndislegt að sjá einbeitinguna skína af hverju andliti. Það höfðu verið stífar æfingar fyrir komu okkar og voru allir búnir að læra textana sína mjög vel, en það hefur ekki verið auðvelt fyrir alla. Við dreifðum pökkum að leikriti loknu og voru allir mjög ánægðir með sitt. Áður en við komum á geðsjúkrahúsið keyptum við ýmis konar hreinlætisvörur, en þær vantar oft sárlega.
Við fengum að skoða okkur um og sáum m.a. þvottavélar sem verkefnið hafði gefið fyrir nokkrum árum. Þær litu út eins og nýjar þrátt fyrir mikla notkun en áður fyrr hafði allt verið þvegið í höndunum. Í fyrra stóðu einstaklingar af vefsíðunni www.er.is fyrir söfnum fyrir vatnshreinsibúnaði á heimilið. Áður var vatnið sem notast var mjög skítugt og þurfti að sjóða allt vatn fyrir notkun. Eftir söfnunina voru fest kaup á búnaðinum og nú streymir hreint vatn beint úr krananum. Þetta var mikil búbót fyrir heimilið og voru allir mjög þakklátir.
Við heimsóttum einnig heimili fyrir andlega og líkamlega fötluð börn. Það má segja að á því heimili sé unnið kraftaverkastarf. Mörg barnanna eru mjög fötluð og alveg rúmliggjandi.
Engin lyfta er í húsinu og þurfa starfsmenn að bera börnin milli hæða. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður var tekið vel á móti okkur með söng og dans. Nokkrir skelltu sér meira að segja á dansgólfið með börnunum og var það ótrúleg upplifun. Við vissum ekkert um hvað söngurinn var en það var greinilegt að einhverjar hreyfingar fylgdu með laginu. Við gerðum okkar besta að herma eftir til að falla í hópinn! Í næsta lagi gátum við þó sýnt danshæfileika okkar þar sem fugladansinn varð fyrir valinu en honum gleymir maður seint. Þrátt fyrir að það hafi verið erfitt að sjá fátæklegar aðstæður á þessu heimili, þá gerði gleðin í andlitum barnanna heimsóknina ógleymanlega og hverrar mínútu virði.
Við höfum heimsótt eitt ákveðið munaðarleysingjahæli árlega og er mjög gaman að sjá uppbyggingarstarfið sem þar á sér stað. Verið er að endurbyggja eina álmuna og er hún orðin hin glæsilegasta. Nýir dúkar eru á gólfum, veggir flísalagðir og ný klósett og sturtur komnar á staðinn.
Uppbygingarstarfið heldur áfram og er vonin að það sé hægt að taka álmuna aftur í gagnið fljótlega. Þessi álma er ætluð fyrir börn sem eru ný komin af götunni. Þar eru þau í nokkurs konar sóttkví í ákveðinn tíma þangað til þau geta farið til hinn barnanna. Þetta er gert þar sem þau geta verið með lús og hina ýmsu sjúkdóma.
Þegar við komum á staðinn var búið að raða upp stólum fyrir okkur og ljóðalestur fór fram. Þegar kom að einni stelpu sem var á unglingsaldri þá reyndist erfitt að fá hana upp á svið því hún var svo feimin. Þá bjargaði ein stelpa málunum (hún hefur verið um 4 ára) og hoppaði upp á svið og fór með annað ljóð eins og ekkert væri. Kátínan var mikil þegar við dreifðum pökkunum. Það sem maður tekur helst eftir er hvað öll börnin fara vel með hlutina.
Þau taka mjög hægt upp úr kassanum og skoða hvern hlut vel. Þegar því er lokið brjóta þau fötin saman og raða dótinu aftur ofan í kassann snyrtilega. Það er greinilegt að þau meta gjafirnar mikils og ætla sér að passa vel upp á þær.
Hópurinn sem sér um Jól í skókassa hefur haft það sem hliðarverkefni að gefa föngum gjafir (t.d. föt og snyrtivörur) í Kirovohrad. Við vorum svo lánsöm að fá að heimsækja nokkra fanga og afhenda þær. Þrátt fyrir stranga öryggisgæslu var létt yfir þeim föngum sem við fengum að hitta. Við hittum þá inn í kapellu sem þeir byggðu sjálfir innan fangelsismúranna. Allt sem er inni í kapellunni er gert af þeim, t.d. myndir á veggjum og altarið. Sem dæmi um hugvitssemi þeirra þá bjuggu þeir til kertastjaka úr áldósum. Hann var mjög fallegur og bar alls ekki með sér að vera búinn til úr endurnýtanlegu efni. Þegar útdeilingu gjafa var lokið fengu strákarnir í hópnum að skoða fangelsið en stelpurnar biðu í kapellunni. Nokkrir fangar komu og spjölluðu við okkur stelpurnar á bjagaðri ensku og voru þeir innilega þakklátir fyrir heimsóknina og gjafirnar.
Eftir vel heppnaðar heimsóknir héldum við heim á leið. Ferðin hófst með 5 klst. keyrslu í rútu þar sem miðstöðin virkaði ekki, en úti var -25°frost! Það voru því kaldir ferðalangar sem settust upp í flugvélina en gátu hlýjað sér við ótal góðar minningar síðustu daga. Hvort sem það var heimsókn á munaðarleysingjahæli, geðsjúkrahús eða fangelsi þá áttu þær allar eitt sameiginlegt: Þakklæti. Það er ótrúlegt hvað einn lítill skókassi getur gert stóra hluti.
Takk fyrir að taka þátt!